Hvar get ég keypt bækur forlagsins?

Hægt er að fá nýútkomna bók forlagsins Þar sem skömmin skellur í bókabúðum Eymundsson í Reykjavík Akureyri, Ísafirði, Keflavík og Akranesi. Þá er jafnframt hægt að fá bókina í bókabúð Forlagsins að Fiskislóð í Reykjavík og í Kaupfélaginu á Hvammstanga. Þá er ennfremur hægt að panta bókina beint hjá forlaginu með því að senda tölvupóst á espolin@espolin.is.

Hvað aðrar útgefnar bækur Önnu Dóru Antonsdóttur varðar þá fer það eftir lagerstöðu hverju sinni hvaða titlar eru fáanlegir. Sendið okkur póst á espolin@espolin.is og við svörum fyrirspurnum um hæl.

Ú T G E F N A R  B Æ K U R

Skárastaðamálið í Húnavatnssýslu er 160 ára gamalt sakamál. Ungabarn deyr voveiflega og annað barn kemur ekki í ljós hvernig sem leitað er. Á Skárastöðum í Austurárdal hafa gerst válegir atburðir. Reglur samfélagsins eru brotnar og yfirvöld skerast í leikinn. Fleiri brot koma til kasta sýslumanns, málin gerast snúin og tímafrek í réttarkerfinu. Þungir dómar falla.

Í bókinni er skyggnst í dómabækur og fleiri samtímaskjöl, framburði vitna gerð skil og lesið í eyður. Að lokum er fylgst með sakborningum eftir að dómar eru kveðnir upp. Skárastaðamálið hefur lengið legið í þagnargildi, nú er þögnin rofin.

Refir í hættu er lesvæn bók fyrir börn á aldringum 7-9 ára. Rebbarnir sem bókin fjallar um eru í mikilli hættu, enda eiga þeir í hættu við óvini sem eru sérstaklega erfiðir viðureignar.

 

Það er nefnilega svo að maðurinn og náttúran eiga ekki alltaf samleið.

Bardaginn á Örlygsstöðum er barnabók um spennandi sögu sem gerist á spennandi tímum í Íslandssögunni. „Ég var svo æstur og uppspenntur að ég endurtók hvað eftir annað: -Þeir eru að fara að berjast, þeir eru að fara að berjast.“ Þetta er sagan af Dodda í Sólheimum sem var drengur þegar Örlygsstaðabardagi var háður Skagafirði árið 1238.

 

Sagan af Dodda og vinum hans sem verða vitni að sögulegum viðburði á Sturlungaöld er í senn spennandi, fræðandi og lesvæn. Fyrirhugaðar eru fleiri bækur í sama stíl, sögur barna frá umbrotatímum í Íslandssögunni.

Brúðkaupið Í Hvalsey er söguleg skáldsaga sem byggir á síðustu ritheimildum um grænlendinga hina fornu. Ung kona frá Ökrum í Skagafirði siglir á vit óvissunnar. Hún gerist víðförul og brúðkaup hennar er haldið á Grænlandi. Hún kemur síðan heim og sest að á föðurleifð sinni, Ökrum.

Þrjár merkilegar heimildir eru til um brúðkaup Sigríðar Björnsdóttur og Þorsteins Ólafssonar í Hvalsey á Grænlandi, hin svonefndu Hvalseyjarbréf. Ívaf sögunnar er ráðgátan um afdrif norrænna manna á Grænlandi miðalda.

Voðaskotið er saga um voveiflegt dauðsfall vinnukonu og eftirmála þess.

"Þar lá kvenmaður á loftinu og byssa undir henni. Hélt ég fyrst að yfir hana hefði liðið en þegar ég gætti betur að sá ég að hún var blóðug á höfði. Ég lyfti henni upp og sá þá að hún var dauð."

Þannig fórust orð einu aðalvitninu í þessu sérstæða sakamáli sem aldrei var til lykta leitt. Yfirvöld hliðruðu sér hjá dómi en alþýða manna ekki og alþýðudómstóllinn er miskunarlaus.