Hvar get ég keypt bækur forlagsins?

Hægt er að fá nýútkomna bók forlagsins Þar sem skömmin skellur í bókabúðum Eymundsson í Reykjavík Akureyri, Ísafirði, Keflavík og Akranesi. Þá er jafnframt hægt að fá bókina í bókabúð Forlagsins að Fiskislóð í Reykjavík og í Kaupfélaginu á Hvammstanga. Uppskriftir stríðsáranna og Sólarkaffi er sömuleiðis hægt að fá í helstu búðum Eymundsson og bókabúð Forlagsins að Fiskislóð í Reykjavík. Uppskriftir stríðsáranna er einnig hægt að kaupa í Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki. Þá er ennfremur hægt að panta bókina beint hjá forlaginu með því að senda tölvupóst á espolin@espolin.is.

Hvað aðrar útgefnar bækur varðar þá fer það eftir lagerstöðu hverju sinni hvaða titlar eru fáanlegir. Sendið okkur póst á espolin@espolin.is og við svörum fyrirspurnum um hæl.

Ú T G E F N A R  B Æ K U R

Í þessari einstöku matreiðslubók má finna íslenskar, einfaldar, ódýrar, gamlar, en umfram allt góðar uppskriftir, allsráðandi í eldhúsum landsins eftir stríð. Uppskriftirnar eru sóttar í smiðju systranna Sigurlaugar og Guðbjargar Sveinsdætra frá Tjörn á Skaga og handskrifaðar matreiðslubækur þeirra. Þær stunduðu nám við Kvennaskólann á Blönduósi á stríðsárunum.

Kringum uppskriftirnar er texti um daginn og veginn, sögulegur fróðleikur um mat og mataruppskriftir ásamt vangaveltum höfunda um lífið og tilveruna.

Sólarkaffi er ljóðabók eftir Kristrúnu Guðmundsdóttur. Ljóðin velta fyrir sér ýmsu er tengist náttúru og veðráttu. Efniviður daglegs máls, ósköp venjulegur en ný sýn verður til og ekkert er venjulegt lengur. Ljóðin koma eins og vindurinn, hið skrifaða orð er nakið úr svörtu bleki og hverfur eins og ekkert sé. Það er þessi óvissa sem er kveikjan að öllu og stundum er niðurstaða, stundum ekki, eins og gengur í lífinu sjálfu. Þá ber ósjaldan skáldskap á góma – og ljóð er tengjast skáldkonum.

Skárastaðamálið í Húnavatnssýslu er 160 ára gamalt sakamál. Ungabarn deyr voveiflega og annað barn kemur ekki í ljós hvernig sem leitað er. Á Skárastöðum í Austurárdal hafa gerst válegir atburðir. Reglur samfélagsins eru brotnar og yfirvöld skerast í leikinn. Fleiri brot koma til kasta sýslumanns, málin gerast snúin og tímafrek í réttarkerfinu. Þungir dómar falla.

Í bókinni er skyggnst í dómabækur og fleiri samtímaskjöl, framburði vitna gerð skil og lesið í eyður. Að lokum er fylgst með sakborningum eftir að dómar eru kveðnir upp. Skárastaðamálið hefur lengið legið í þagnargildi, nú er þögnin rofin.

Refir í hættu er lesvæn bók fyrir börn á aldringum 7-9 ára. Rebbarnir sem bókin fjallar um eru í mikilli hættu, enda eiga þeir í hættu við óvini sem eru sérstaklega erfiðir viðureignar.

 

Það er nefnilega svo að maðurinn og náttúran eiga ekki alltaf samleið.

Bardaginn á Örlygsstöðum er barnabók um spennandi sögu sem gerist á spennandi tímum í Íslandssögunni. „Ég var svo æstur og uppspenntur að ég endurtók hvað eftir annað: -Þeir eru að fara að berjast, þeir eru að fara að berjast.“ Þetta er sagan af Dodda í Sólheimum sem var drengur þegar Örlygsstaðabardagi var háður Skagafirði árið 1238.

 

Sagan af Dodda og vinum hans sem verða vitni að sögulegum viðburði á Sturlungaöld er í senn spennandi, fræðandi og lesvæn. Fyrirhugaðar eru fleiri bækur í sama stíl, sögur barna frá umbrotatímum í Íslandssögunni.

Brúðkaupið Í Hvalsey er söguleg skáldsaga sem byggir á síðustu ritheimildum um grænlendinga hina fornu. Ung kona frá Ökrum í Skagafirði siglir á vit óvissunnar. Hún gerist víðförul og brúðkaup hennar er haldið á Grænlandi. Hún kemur síðan heim og sest að á föðurleifð sinni, Ökrum.

Þrjár merkilegar heimildir eru til um brúðkaup Sigríðar Björnsdóttur og Þorsteins Ólafssonar í Hvalsey á Grænlandi, hin svonefndu Hvalseyjarbréf. Ívaf sögunnar er ráðgátan um afdrif norrænna manna á Grænlandi miðalda.

Voðaskotið er saga um voveiflegt dauðsfall vinnukonu og eftirmála þess.

"Þar lá kvenmaður á loftinu og byssa undir henni. Hélt ég fyrst að yfir hana hefði liðið en þegar ég gætti betur að sá ég að hún var blóðug á höfði. Ég lyfti henni upp og sá þá að hún var dauð."

Þannig fórust orð einu aðalvitninu í þessu sérstæða sakamáli sem aldrei var til lykta leitt. Yfirvöld hliðruðu sér hjá dómi en alþýða manna ekki og alþýðudómstóllinn er miskunarlaus.